Minnisglöp Össurar

Hér var bara boðið upp á djús í tilefni þess að Össur átti afmæli

Össur Skarphéðinsson er svo sannarlega öflugur í kosningabaráttunni þessa dagana. Svo miklum hamförum fer maðurinn í kosningaklækjum að það læðist að mér sá grunur að maðurinn vakni hreinlega við fyrsta hanagal hvern einasta morgun fullur tilhlökkunar að takast á við andstæðing og annan. Bíður þess hreinlega að fá að kljúfa menn í herðar niður. Jafnaðarmannariddarinn.

Þegar spennan er orðin svo mikil nú stuttu fyrir kosningar reiðir hins vegar á að menn sýni stilli. Þessu virðist Össur þó hafa gleymt í hitanum, því svo mikið kapp hljóp í þingflokksformanninn í morgun, að honum hefur að líkindum orðið brátt í brók af spennunni einni saman!

Hann taldi sig væntanlega loksins, já loksins, hafa baneitraða ör í höndunum. Nú átti sannanlega að kýla fylgi Sjálfstæðisflokksins niður. Hann spennti því bogann af mikilli fimi, skaut gullnu örinni í átt að Sjálfstæðisflokknum og afraksturinn ... tja, afraksturinn varð þetta blogg.

Þingflokksformaðurinn mátti vart vamm sitt vita yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi boðið stúdentum Háskólans í Reykjavík í kokteil! Og það dugði ekkert minna en hegningarlagabrot til að lýsa ólifnaðinum. Þvílíkur var óbjóðurinn og asnaskapurinn í Sjálfstæðisflokknum. Misneyting og misnotkun á bláfátækum og forheimskum stúdentum, sem létu ginnast með 0,33cl öli í bauk – allt fyrir atkvæðið.

Alsæluvíma Össurar yfir þessum óvænta hælkrók á Sjálfstæðisflokkinn, virðist hins vegar hafa haft slæmar afleiðingar á minni mannsins. Það var nefnilega ekki nema réttum hálfum mánuði fyrir ólifnað Sjálfstæðisflokksins að ég, og aðrir stúdentar við HR, fengum boðskort frá Össuri og flokksfélögum hans í Samfylkingunni (sjá mynd). Spekingslegt glott þingflokksformannsins á glæsilegu boðskortinu og hljómfagrar setningar um fríar veigar Bakkusar áttu sannanlega að tæla boðsgestina til liðs við Samfylkinguna. Kjóstu sammarana og þú færð bjór.

Í boðskortinu kom því miður hvergi fram að boðið færi gegn hegningarlögum, siðgæðisvitund og almennu velsæmi siðprúðra manna.

Hins vegar eru tilfæringar Össurar á bloggi sínu gegn öllu velsæmi. Eiga kjósendur að taka mann alvarlega sem hagar sér með svo miklum barnaskap að einstaklingar á Grænuborg roðni yfir asnaskapnum? Er maðurinn að bjóða sig fram til að stjórna skemmtinefnd HR eða til að stjórna heilu landi? Ég er svei mér þá ekki viss hverju skal svara.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú minnist ekkert á að eftir vísindaferðina sé bjór í boði á bar niðri í bæ fyrir þá sem hafa merki sjálfstæðisflokksins í barminum, er þetta venjan í vísindaferðum að boðið sé upp á áframhaldandi veigar eftir að hinni raunverulegu vísindaferð er lokið ef þeir eru merktir t.d. viðkomandi fyrirtæki?

t.d. eftir vísindaferð í ölgerðina, er þá boðið upp á áfengi eftir hina formlegu vísindaferð fyrir þá sem eru merktir Egils ? 

Sigurður Jónsson (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 21:24

2 identicon

Hahahahah!!! Þarna skeit hann Össur illilega í sig greyið.

Kata (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 21:34

3 Smámynd: Einar Örn Gíslason

Svo heldur Össur áfram og rifjar upp ummælin um sætu stelpuna á ballinu, einhver panikk komin í kallinn! Spurning um að rifja upp Castro og Chavez og hina vini hans?

Einar Örn Gíslason, 8.5.2007 kl. 21:35

4 identicon

Misnotkun á forheimskum stúdentum??

Kata (IP-tala skráð) 8.5.2007 kl. 22:52

5 identicon

Þú ert hin tærasta snilld!

Aumingja Össur er að fara á límingunum...  greyið 

Lilja Haralds (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 00:38

6 Smámynd: Jakob

Vel mælt!

Jakob, 9.5.2007 kl. 00:55

7 identicon

Í Guðs bænum farðu aftur í frí!

Jafn ómálefnalegt bull og áður.

Ævar (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 07:56

8 identicon

Hahahahaha. Þessi var góður.Það er örvænting í samfylkungunni. Ég á ríka vinkonu sem býr í "ríku"hverfi. Á sunnudagskvöld bankar Mörður Árnason uppá hjá henni og vill spjalla um pólitík. Spjalla um samfylkinguna við ríka-fólkið sem samfylkingin þolir ekki. Ragnar Reykhás hvað?

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 08:23

9 Smámynd: Árni Gunnarsson

Þetta var mikill pistill enda mikið í hann lagt.

Össur "mátti vart vamm sitt vita yfir því........." Það er góður siður að slá ekki um sig með gömlu máltæki fyrr en maður þekkir merkinguna.

En látið bara ekki deigan síga við stappa stálinu hvert í annað.

Góðan bata!

Árni Gunnarsson, 9.5.2007 kl. 12:19

10 Smámynd: Geir Ágústsson

Árna er þökkuð leiðrétting hans á meintri rangnotkun gamals orðtaks. Nei bíddu, hann leiðrétti ekkert - gaf bara í skyn að eitthvað væri ekki rétt notað!

Minnisglöp Össurar eru sígilt umræðuefni í íslenskri pólitík - jafnregluleg og fréttir Sjónvarpsins í hugum landsmanna. Ingibjörg Sólrún á við svipuð minnisglöp að etja á meðan aðrir eins og Steingrímur J vilja banna bjórinn einn daginn en reisa bjórverksmiðju á Íslandi þann næsta.

Flugdreki í breytilegri átt skiptir sjaldnar um stefnu en þetta lið.

Geir Ágústsson, 9.5.2007 kl. 13:43

11 identicon

Sæl Heiðrún Lind

 Mjög skemmtilegar og góðar færslur hjá þér.  

Daði (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 14:21

12 identicon

Sæl Heiðrún Lind

 Mjög skemmtilegar og góðar færslur hjá þér.  

Daði (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 14:21

13 identicon

Ég get ekki séð að Össur sé að gagnrýna það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi staðið fyrir Vísindaferð, enda hefur Samfylkingin gert hið sama. Hins vegar er Össur, eftir því sem ég kemst næst, að gagnrýna það að fólk gæti haldið áfram að drekka á kostnað flokksins á bar í bænum.

Annars á ég erfitt með að skilja athugasemdina frá Birnu þar sem hún segir að Samfylkingin þoli ekki ríkt fólk. Merkir það þá að Birna telji að Sjálfstæðisfólk þoli ekki fátækt fólk?????

Mbk, Auður

Auður Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 14:26

14 identicon

Váh, léleg vörn hjá þér Auður!  Er munur á því hvort þú færð ókeypis áfengi fyrir kl. 12 eða eftir kl. 12????!!!!???

H. Vilberg (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 16:07

15 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Já, það er ekki alltaf hægt að skjóta í mark ef maður skýtur jafn oft og Össur

Annars er mjög sorglegt að sjá alla þessa fordóma gagnvart Samfylkingunni í commentunum hérna.. skemmtilega heilaþvegið allt. 

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 9.5.2007 kl. 16:37

16 identicon

Síðastliðnum fimm mínútum lífs míns hef ég nú eytt í ómálefni. Að hugsa sér, ómálefnaleg skrif gagnrýnd með svo ómálefnalegum hætti að á endanum gleymir lesandinn upptökum umræðunnar. Chaves, Castro og rík vinkona í "ríku" hverfi ýttu mér út af sporinu augnarblik. Sæmilega sannfærandi röksemdarfærslu bloggarans hefði ég vel getað hugsað mér að ræða hér í athugasemdum við hugsandi fólk. Ég hætti við þegar mér varð ljóst hversu grunnur umræðunnar hafði verið skemmdur með sérlega ómálefnalegum athugasemdum.

Jæja ég hressi mig upp við tilhugsunina um jafnaðar- og vinstrisinnaða HR-inga sem varla hafa borið bláa barmerkið fyrir það eitt að fá tilboð á barnum. Skrýtið, segi ég því samhengið er óljóst, en ég hugsaði rétt í þessu um ofurvald kirkjunnar á miðöldum, Galileo og sólmiðjukenninguna. Skildi jörðin enn vera flöt hefði Páfi stillt fyrir framan hann einum ísköldum öl?

Bloggara vil ég benda á að færa mótrök fyrir rökum sínum, það myndi sæma sér betur með fallegu málfarinu og auk þess gæti það komið í veg fyrir að fólk héldi að hér væri um áróðursblogg að ræða.

Bergljót (IP-tala skráð) 9.5.2007 kl. 17:18

17 Smámynd: Hrólfur Guðmundsson

Svo þú ert járnskvísan?  Vonandi ertu ekki að deita Járnmeistara Byrgisins?

Hrólfur Guðmundsson, 9.5.2007 kl. 17:21

18 Smámynd: Árni Gunnarsson

Minnisglöp eru algeng í íslenskri stjórnmálabaráttu. Útskýringabrengl eru þó verri og þó eru ósannindi verst.

1. Þjófnaður er ekki tæknileg mistök.

2. Heimskuleg og lífshættuleg afglöp í utanríkismálum er ákvörðun sem verður ekki skýrð með: "Þessi ákvörðun var rétt miðað við þær upplýsingar sem þá lágu fyrir". Svona tala þeir einir sem ekki eru menn til að bera ábyrgð.

Að mörgum tugum atriða slepptum sem varða afglöp ríkisstjórnarinnar og af ýmsum ólíkum toga minni ég á nokkurra mínútna gamlar upplýsingar um stærsta glæp af þjóðhagslegum toga í sögu þessarar þjóðar og ég er að tala um kvótasvindlið. Það hefur verið helsta baráttumál okkar Frjálslyndra frá fyrsta degi að búa til reglur sem fella út alla hvata til þessarar glæpastarfsemi sem er á vitorði allra sjómanna. Við höfum bent á þessa leið í 8 ár en öllu verið hafnað af varðhundum kerfisins. Þetta hefur verið greitt með lífskjörum fólksins í hinum dreifðu sjávarbyggðum. Það hefur jafnframt verið greitt með vaxandi hættuástandi í lífríki hafsins sem lengi hefur verið undirstaða allrar velferðar þessarar þjóðar. Á þessu hafa hinsvegar allmargir þóknanlegir grætt milljarðatugi. Þróun þessara mála hefur verið á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins lengst.

Niðurstaðan flokkast ekki undir minnisglöp. Þar liggja önnur glöp að baki en þá er komið að meiðyrðalöggjöfinni.

Árni Gunnarsson, 9.5.2007 kl. 19:50

19 Smámynd: Heiðrún Lind

Árni: Ég vil biðja þig að greina í sundur blogg og athugasemdir. Þér er að sjálfsögðu frjálst að gera athugasemdir við bloggfærslur mínar og þær skoðanir sem birtast í einstakri færslu. Mér þætti hins vegar vænt um að þú bloggaðir á eigin bloggsíðu um það sem huga þínum stendur næst. Kvótakefið er bloggfærslu minni um minnisglöp Össurar algerlega óviðkomandi.

Allir: Þakka annars fyrir skemmtileg komment. Ég er ekki mikið fyrir að taka þátt í þessu kommentaföndri á eigin bloggi - það er næstum eins og að tala við sjálfan sig ... sumsé ekki smart. Ég læt því bloggfærslurnar að mestu leyti duga.

Heiðrún Lind, 9.5.2007 kl. 21:57

20 Smámynd: Árni Gunnarsson

Heiðrún: Ég elska þig líka!

Árni Gunnarsson, 9.5.2007 kl. 22:03

21 Smámynd: Magnús Már Guðmundsson

Heil og sæl Járnskvísa.

Össur sagði: ,,Hann tjáði mér að þetta boðskort frá Sjálfstæðisflokknum - þar sem mönnum er mútað með áfengi fyrir að bera merki flokksins - hafi verið sent út á einhvern póstlista í Háskólanum í Reykjavík."

Hann er ekki að gagnrýna að ,,Sjálfstæðisflokkurinn hafi boðið stúdentum Háskólans í Reykjavík í kokteil!" Þú hlýtur að sjá að það er munur á að bjóða HRingum í kokteil annarsvegar og hinsvegar að neyða alla þá sem vilja fríkeypis öl á Hvebbanum að bera merki Sjálfstæðisflokksins. Það var það sem félagi Össur var að gagnrýna. Ekki kokteilboðið í Valhöll enda hefur Samfylkingin boðið til sín hópum á Hallveigarstíginn.

Með vinsemd og von um góðan laugardag,
Magnús Már

Magnús Már Guðmundsson, 9.5.2007 kl. 23:07

22 identicon

Magnús, hvað var Össur þá að tala um hegningarlagabrot? Hann skaut sig einfaldlega í fótinn og einhverjar síðari túlkanir þínar breyta engu þar um.

Andri (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 07:38

23 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Sorglegt samt að það er meiri umræða hér um hvort Össur sé að skjóta framhjá en um skattaþróun á síðustu færslu.. það virðist vera lítið um svör, enda ekki bara froðusnakk um áfengisboð stjórnmálaflokka.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 10.5.2007 kl. 08:14

24 Smámynd: Geir Ágústsson

Magnús, enginn er neyddur til að:

  • gefa áfengi
  • gefa áfengi til allra þótt einhverjum sé gefið
  • þiggja áfengi

Geir Ágústsson, 10.5.2007 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband