Kjördagur Ingibjargar Sólrúnar í dag

Fyrir nokkrum dögum sagði Ingibjörg Sólrún að það væri ekkert að marka skoðanakannanir. Kjördagur væri eina skoðanakönnunin sem gild væri.

Í dag var kjördagur hjá Ingibjörgu Sólrúnu. Í fréttum Bylgjunnar sagðist hún afar þakklát fyrir þann mikla stuðning sem flokkurinn væri að fá í skoðanakönnunum. Þetta væri mjög góð niðurstaða fyrir Samfylkinguna og fólk hefði augljóslega tekið undir sjónarmið flokksins um að góðærinu væri misskipt ...zzzz ...

Þrátt fyrir að ég sé með 39 stiga hita, stíflað nef og dúndrandi hausverk er ég alveg viss um að ég skilji enn íslensku (svona nokkurn veginn). Ég viðurkenni þó að eiga erfitt með einbeitingu þegar heilsan er á þennan veg og varla á ástandið bætandi að vera með Ingibjörgu í eyrunum. Ég er þess þó fullviss að ég heyrði formanninn ekki úthúða skoðanakönnunum og telja þær hina mestu markleysu í dag. Ég álykta því sem svo að samfylkingarmenn hafi kosið í dag, enda kjördagur eina skoðanakönnunin sem mark er á takandi að mati formannsins.

Merkilegt.

Sökum þessa tvískinnungs formannsins svo má auðvitað vænta þess að hún staðhæfi að kosningarnar séu markleysa bíði flokkurinn hnekki á laugardag. Þá verða skoðanakannanirnar hin heilaga ritning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Egilson

Panikk og pirringur ? ISG hefur staðið sig vel í kosningabaráttunni og því betur sem á hana líður. Það sama á auðvitað um marga frambjóðendur allra flokka.

Vona svo að sætustu stelpunni á ballinu hjaðni hitasóttin -það ætti að lina pirringinn .

Kveðja,

Þorsteinn Egilson, 10.5.2007 kl. 20:51

2 identicon

Heyrðirðu örugglega rétt?  Hún var síðast í fyrradag að lýsa frati á áreiðanleika skoðanakannana.

Ertu ekki bara með óráði?  

Lilja Haralds (IP-tala skráð) 10.5.2007 kl. 21:55

3 Smámynd: Magnús V. Skúlason

Frjálslyndur jafnaðarmaður = Tækifærissinni ?

Magnús V. Skúlason, 10.5.2007 kl. 22:24

4 Smámynd: Geir Ágústsson

Heiðrún þó, þú veist hvað vinstrimönnum (sérstaklega Samfylkingarfólki) er illa við að einhver rifji upp fyrri afrek og orð hinna öldnu leiðtoga sinna!

Geir Ágústsson, 10.5.2007 kl. 22:33

5 Smámynd: Auðun Gíslason

Súr?

Auðun Gíslason, 11.5.2007 kl. 00:09

6 Smámynd: Auðun Gíslason

Minna ríki?  Og alltaf stækkar það, sbr. blog Indriða! Meira frelsi, abbabbabb?

Auðun Gíslason, 11.5.2007 kl. 00:12

7 identicon

Ó vá, þvílíkur tvískynnungur og siðleysi, manneskjan hlýtur að vera afkvæmi djöfulsins, enda virðist hún koma í veg fyrir bata þinn með röddinni einni, og það í gegn um fjölmiðla, öflugur ári þetta.
E.t.v. er bara neikvæðnin og hatrið í sjálfri þér að koma í veg fyrir bata þinn, einbeittu þér nú að jákvæðari hlutum og láttu þér batna.

Friðrik (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 08:22

8 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Jámm, hér er andskotast út í Ingibjörgu og Össur, en enginn hefur áhuga á að reyna hrekja að Sjálfstæðisflokkurinn hefur hækkað skatta gríðarlega þremur færslum fyrir neðan. Froðusnakk fyrir kosningar.. enda fátt hægt að gorta sig af.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 11.5.2007 kl. 12:26

9 identicon

Ertu viss um að Ingibjörg hafi sagt að "það væri ekkert að marka skoðanakannanir"? Ef svo er, þá væri gaman ef þú gætir vísað okkur hinum á hvar þessi ummæli er að finna. Ég tel líklegra að hún hafi sagt það sama og flestir ef ekki allt annað forystufólk flokkanna; að úrslitin myndu ráðast á kjördag. Er það rangt hjá henni? Eru skoðanakannanir einhvers konar niðurstöður? Nei, en þær gefa vitanlega vísbendingar um hvert fylgi er að sveiflast. Það er að öllum líkindum það sem Ingibjörg er að vísa til í þessu viðtali, þ.e. að hún sé þakklát fyrir að fylgið virðist vera að sveiflast í átt að Samfylkingunni, SAMKVÆMT SKOÐANAKÖNNUNUM.

Annars er merkilegt að sjá að síðust daga kosningabaráttunnar hafi Sjálfstæðisfólk um lítið annað að tala en Ingibjörgu og Össur. Er svona svakalegur skjálfti í fólki?

Mbk, Auður

Auður Hermannsdóttir (IP-tala skráð) 11.5.2007 kl. 12:32

10 Smámynd: Kallaðu mig Komment

Ég vona að þú verðir a.m.k. nógu hress á laugardaginn til að mæta á kjörstað.

Kallaðu mig Komment, 11.5.2007 kl. 13:02

11 Smámynd: Svanfríður Lár

Þvílík neikvæðni. Alltaf sami hræðsluáróður í blámönnum. Ó, mikill er greinilega máttur Ingibjargar

Svanfríður Lár, 11.5.2007 kl. 14:11

12 Smámynd: Geir Ágústsson

Varðandi skrif Indriða,

"Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að þegar tekjur manna snarhækka almennt í þjóðfélaginu að menn greiði meira í skatt. Ríkisstjórnin hefur hins vegar verið að lækka tekjuskattshlutfallið og persónuaflsláttur hefur fylgt verðlagsþróun. Ef hún hefði ekki gert það hefði „skattbyrðin“ aukist enn meira."

http://www.andriki.is/default.asp?art=11052007

Reyndar hefur persónuafsláttur vaxið hraðar en verðlag hefur hækkað en það er líklega of mikið fyrir alla að kyngja, enda gengur raunveruleikinn þvert á hið "viðtekna" í umræðunni.

Heiðrún mætti alveg taka Sjálfstæðismenn fyrir líka. Til dæmis sagði Haarde nafni minn eitthvað um "sætustu" stelpuna á ballinu og vinstrimenn hafa ekki talað um annað síðan, og gera enn. Þegar skortur er á krassandi ummælum eru þau fáu endurnýtt eins og kókflaska af gamla skólanum.

Geir Ágústsson, 11.5.2007 kl. 15:41

13 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Geir: Nei nei, Hr. Haarde sagði líka að stelpurnar í Birginu hefðu örugglega orðið óléttar hvort sem er, þannig að við höfum úr fleiru að taka.

.

Þú hinsvegar segir að persónuafsláttur hafi vaxið hraðar en verðlag, en það er ekki það sem skiptir máli. Ef persónuafsláttur vex ekki jafn hratt og launavísitala, þá eykst skattheimta, og vegna þess að launaþróun er mjög ör vegna hárrar verðbólgu -- þá sitjum við Íslendingar upp við mestu skattahækkanir innan OECD síðustu 10 ára! Frábær árangur það.

.

Tekjur manna hafa snarhækkað í nokkrum löndum Evrópu þar sem hefur verið meiri hagvöxtur en hér, eins og t.d. Írlandi og Finnlandi, en þar hefur skattbyrðin lækkað um 2%. Hækkun hér um 10% á sama tíma er bara óafsakanleg, og það að reyna að ljúga að almenningi að skattar hafa lækkað á Íslandi á þessu tímabili er bara til skammar.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 11.5.2007 kl. 19:08

14 Smámynd: Geir Ágústsson

Úbbs já gleymdi hinu kommentinu.

Skattar hafa ekki lækkað nægilega hratt, og ríkið fengið alltof mikið af ávinningi í ríkiskassann vegna þess (sem er jafnharðan eytt út í allar áttir). Skattar hafa lækkað en skatttekjuhlutföll í skattkerfi persónuafsláttar (þótt hækkandi sé) hafa hækkað vegna gríðarlegs vaxtar í launum langt umfram verðbólgu (hence: vaxandi kaupmáttur). Sómi hvers stjórnmálamenn ætti að felast í því að reyna minnka ráðstöfunartekjur sínar (auka ráðstöfunartekjur launþega), en ekki bólgna út með góðærinu.

Hraðari skattalækkanir ættu að vera forgangsverkefni næstu ríkisstjórnar. 

Geir Ágústsson, 11.5.2007 kl. 20:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband