Um laganám og skýrslu Ríkisendurskoðunar um háskóla

Hver er sigurvegarinn?Síðustu daga hefur nokkuð verið rætt um nýútkomna skýrslu Ríkisendurskoðunar um kostnað, skilvirkni og gæði háskólakennslu. Skýrslan veitir ágæta, en þó fremur takmarkaða og að nokkru villandi innsýn í stöðu háskólanna á árunum 2003-2005.

Samanburður á háskólum í samkeppni er góður fyrir margra hluta sakir. Að mörgu ber hins vegar að hyggja þegar ráðist er í slíkan samanburð, auk þess sem fara verður varlega í að túlka niðurstöður hans. Þetta virðist að nokkru hafa gleymst í umræðum undangengna daga og hafa bæði fréttamenn og álitsgjafar gengið heldur langt í að túlka þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni og hvernig meta skuli niðurstöðuna. Þá hafa forsvarsmenn Háskóla Íslands (HÍ) ekki farið varhluta af ánægju sinni með skýrsluna.

Sem dæmi um undarlega túlkun sem komið hefur fram má nefna grein sem Dagný Ósk Aradóttir, formaður Stúdentaráðs HÍ, birti í Morgunblaðinu mánudaginn 18. júní sl. Hélt formaðurinn því meðal annars fram að HR fengi hærri rekstrarframlög frá ríkinu en HÍ, enda sýndi skýrslan að 76% rekstrarfjár HR árið 2005 kæmi frá ríkinu en aðeins 66% hjá HÍ. Tölurnar eru sannanlega réttar, en Dagný Ósk kýs að líta framhjá þeirri staðreynd að á tímabilinu tók HR yfir rekstur Tækniháskóla Íslands, sem var ríkisrekinn háskóli. Sá skóli hlaut því töluverðan hluta þess rekstrarfjár sem síðar rann inn í HR. Það telst því vart marktækur samanburður að líta til ársins 2005 hvað þennan þátt varðar. Þá lítur Dagný einnig framhjá þeim staðreyndum að HÍ fær margfalt hærri rannsóknarframlög frá ríkinu en aðrir háskólar, auk þess sem HÍ er tryggt enn meira fjármagn með því að skólanum er veitt einkaleyfi á happdrætti – nokkuð sem öðrum háskólum stendur ekki til boða. Aukinheldur má ekki gleyma því að HÍ rekur ýmsar stofnanir, sem fá töluvert fjármagn frá ríkinu í fjárlögum. Allar þessar staðreyndir kýs Dagný Ósk því miður að hunsa. Er málflutningur í þessa veru hvorki formanninum né HÍ til framdráttar.

Í samantekt Ríkisendurskoðunar segir meðal annars: „Af þeim ellefu atriðum sem horft var til varð HÍ efstur í níu tilvikum og í öðru sæti í einu. Skólinn var ódýrastur og með sterkasta akademíska stöðu í öllum námsgreinunum þremur, auk þess sem hann var skilvirkastur í tveimur námsgreinum af þremur.“ Af þessum orðum má sannalega ætla að Háskóli Íslands hafi unnið fegurðarsamkeppnina. En í hverju var Háskóli Íslands raunar bestur? Til að skoða þetta nánar er ágætt að taka samanburð á laganámi sérstaklega til skoðunar, enda hefur nokkur styr staðið um hina auknu samkeppni í laganámi síðastliðin ár.

Kostnaður
Í skýrslunni kemur fram að starfsmannakostnaður á hvern fullskráðan laganema var langlægstur hjá HÍ. Einkareknu skólarnir höfðu nokkuð hærri starfsmannakostnað og taldi Ríkisendurskoðun það meðal annars skýrast af ólíkum fjölda nemanda um hvert stöðugildi og mismunandi launum starfsmanna. Menn hljóta því að spyrja hvort það teljist sigur að borga starfsmönnum lagadeildar HÍ lægri laun en aðrir skólar gera, auk þess að þjappa fleiri nemendum á hvern kennara? Telja forsvarsmenn HÍ það ánægjuefni? Ríkisendurskoðun telur slíkt að sjálfsögðu sigur, enda er þeirri stofnun falið að lögum að sjá til þess að fjármagn ríkisins sé nýtt á sem hagkvæmastan hátt. Maður hefði hins vegar haldið að forsvarsmenn HÍ berðu sér ekki á brjóst fyrir sigur í þessum flokki – í það minnsta má ætla að starfsmenn lagadeildar HÍ hafi sett hljóðan.

Í þessum flokki samanburðarins má segja að einkaskólarnir hafi komið vel út. Kennarar einkaskólanna fá betri laun og færri nemendur eru á hvern kennara. Vilji íslenskir háskólar komast á stall með þeim stóru í erlendum samanburði hlýtur afstaða einkaskólanna til þessa þáttar að vera skref í áttina.

Akademísk staða
Akademísk staða háskólanna sem bjóða upp á laganám var metin með því að vega saman tvo þætti; annars vegar menntunarstig fastra akademískra starfsmanna (prófessora, dósenta og lektora) og hins vegar rannsóknarafköst. Kom í ljós að 50% starfsmanna lagadeildar Háskólans í Reykjavík (HR) í föstum akademískum stöðum var með doktorspróf árið 2005. Þeir voru einungis 11% í HÍ og 14% við Háskólann á Bifröst (HB). Af þessum má því vera ljóst að kennarar HR hafa meiri menntun en kennarar annarra skóla. Verður það að teljast ánægjuefni.

HÍ var hins vegar nokkuð hærri en einkaskólarnir þegar greinarígildi á hvert akademískt stöðugildi var skoðað, m.a. vegna tveggja viðamikilla bóka sem starfsmenn lagadeildar HÍ gáfu út á tímabilinu. Greinarígildum hjá kennurum lagadeildar HR fjölgaði hins vegar nokkuð á tímabilinu, á meðan þeim fækkaði hjá kennurum HB.

Þegar þessir tveir þættir voru teknir saman hlaut HÍ 14,7 stig og HR og HB 14 stig hvor. Líkt og látið hefur verið í veðri vaka má sökum þessa velta fyrir sér hvort unnt sé að tala um stórsigur lagadeildar HÍ í samanburði á akademískri stöðu, sérstaklega þegar höfð er í huga sú staðreynd að bæði HR og HB höfðu vart slitið barnsskónum þegar samanburðurinn fór fram? Þá kom einnig í ljós að tekjur sem voru sérstaklega ætlaðar til að kosta rannsóknir voru hlutfallslega mestar hjá HR á tímabilinu. Viðamiklar rannsóknir eru einmitt grundvöllur þess að stofnun geti kallað sig háskóla. Ljóst er því að lagadeild HR stendur vel að vígi þegar akademísk staða er metin.

Skilvirkni
Í þriðja og síðasta lagi var gerður samanburður á skilvirkni laganáms. Var skilvirknin metin með því að skoða annars vegar fjölda nemenda á hvert akademískt stöðugildi (framleiðni vinnuafls) og hins vegar kostnað á hvern brautskráðan nemanda (framleiðni fjármagns). Aðeins var litið til ársins 2005 þegar HR brautskráði fyrstu nemendur sína með B.A. gráðu í lögfræði. Fjöldi brautskráðra nemenda á hvert akademískt stöðugildi árið 2005 var því 3,8 hjá HÍ en 3,0 hjá HR. Þá var einnig metinn starfsmannakostnaður á hvern brautskráðan nemanda árið 2005 og var kostnaðurinn til muna lægstur hjá lagadeild HÍ. Fyrir þetta hlaut lagadeild HÍ flest stig. Hins vegar var brottfall eftir 1 ár í grunnnámi að meðaltali 43% hjá HÍ á árunum 2003-2005 en 24% hjá HR. Er því ljóst að meira fé fór til spillis hjá lagadeild HÍ vegna brottfalls nemenda heldur en hjá HR. Hefur þetta að sjálfsögðu áhrif á skilvirkni, eins og réttilega er bent á í skýrslunni. Það sem miður er þó að brottfallið er einhverra hluta vegna ekki metið til stiga. Ef svo hefði verið má telja nærri öruggt að HÍ hefði ekki verið jafn skilvirkur og Ríkisendurskoðun vill vera að láta.

Finnast meiri gæði í laganámi HÍ heldur en annarra skóla?
Að þessum þremur þáttum virtum, þ.e. kostnaði, skilvirkni og gæði háskólanáms (sem Ríkisendurskoðun skilgreinir svo), má velta fyrir sér hvort HÍ sé sigurvegari í samanburði laganáms á Íslandi. Skólinn vann sannanlega fegurðarsamkeppni Ríkisendurskoðunar, en um leið hljóta menn að spyrja sig hvort slíkt sé eftirsóknarvert þegar raunveruleg gæði kennslu eru metin? Er það lykill að árangri, hvað gæði menntunar varðar, að borga starfsmönnum lægri laun en aðrir háskólar? Er það lykill að árangri að hafa fleiri nemendur á hvern kennara en aðrir skólar? Er það lykill að árangri að hafa minni tekjur eyrnamerktar rannsóknum en aðrir háskólar?

Hvað sem öðru líður er það þó í besta falli varhugavert að stofnun sem á að gæta þess að fjármunum ríkisins sé varið í samræmi við fjárlög, gangi í það hlutverk að kveða upp dóma um gæði náms. Forsendur Ríkisendurskoðunar eru því marki brenndar að kostnaði skuli haldið í lágmarki. Slíkt hefur fátt með gæði náms að gera, enda hafa sumir skólar þá stefnu að laða til sín góða kennara með því að borga þeim góð laun eða að hafa fáa nemendur á hvern kennara. Er þetta meðal annars gert einmitt til að auka gæði kennslu! Slíkt telst hins vegar löstur í bókum Ríkisendurskoðunar. Þegar svo er komið er greinarhöfundur einfaldlega feginn því að Háskólinn í Reykjavík hafi ekki sigrað fegurðarsamkeppni Ríkisendurskoðunar. Betri leiðir við mat á raunverulegum gæðum náms eru án vafa fyrir hendi.

Þess ber að geta að ég er fyrrverandi nemi við lagadeild Háskólans í Reykjavík


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Heyr heyr... góður pistill hjá þér.

Er alveg sammála þér, það eru mjög margir sem hafa mistúlkað þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar.

Væri alveg til í að sjá þennan pistil í einhverju dagblaðanna :)

Ragnheiður P. (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 16:20

2 Smámynd: Aðalheiður Ámundadóttir

Gæði laganáms hlýtur líka að vera afstætt hugtak... að einhverju leiti allavega. Þeir skólar sem bjóða upp á laganám eru að mörgu leiti með mjög ólíkar áherslur sem er vel. Í Háskólanum á Akureyri (þar sem ég nem lög) eru t.a.m. ekki mjög margir fasta kennarar. Námið er byggt um sem svokallað lotunám. þ.e. einn kúrs er kenndur í einu í stað þess að kenna öll fög annarinnar í einu. Þetta gerir skólanum kleift að ráða til sín stundakennara til 3ja vikna (á meðan kúrsinn stendur yfir) og oft og tíðum erum við að fá kennara á heimsmælikvarða, úr virtum háskólum allstaðar að úr heiminum! Menntun þessara kennara kemur ekki fyrir í skýrslu endurskoðunar þar sem þeir eru ekki í fastri stöðu...

En ég hlakka mikið til að sjá hvernig lögfræðingar allra þessara skóla munu standa sig að námi loknu því það hlýtur að bjóða besta samanburðinn þegar öllu er á botninn hvolft. 

Aðalheiður Ámundadóttir, 22.6.2007 kl. 09:29

3 Smámynd: Geir Ágústsson

Launakönnun sem sýnir launaþróun útskrifaðara x árum eftir útskrift er eini skólasamanburðurinn sem segir til um hversu vel skóli býr nemendur sína undir vinnumarkaðinn!

Geir Ágústsson, 29.6.2007 kl. 11:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband