29.4.2007 | 11:56
Dúllan hann Ómar
Ómar Ragnarsson hefur ekki náð flugi í kosningabaráttunni - eða réttara sagt þá hefur hann eiginlega ekki komið niður á jörðina alla baráttuna. Þó maðurinn sé auðvitað dúllulegri en Barbapabbi og Herbert Guðmundsson skeyttir saman, þá er hann einhvern veginn ekki að dansa.
Ég vil nefna nokkrar handahófskenndar ástæður þess að ég kýs ekki Ómar.
Dæmi 1. Þegar Ómar var í Kastljósinu í síðustu viku rekur mig ekki minni til að hann hafi mótmælt nokkrri einustu kostnaðarhvetjandi tillögu sem þáttastjórnendur leituðu álits hans á. Það er svosem allt í góðu ef einhverjir hafa þá skoðun að ríkið eigi að vasast í öllum málefnum einstaklinganna, en menn verða þá að viðurkenna um leið að skattahækkanir séu óhjákvæmilegar til að mæta auknum kostnaði. Ómar ætlaði hins vegar líka að lækka skatta! Þegar hann var svo inntur svara á því hvað hin lofuðu herlegheit kostuðu má segja að hann hafi skotið sig í fótinn - jafnvel báða fæturna. Hann hafði að sjálfsögðu ekki grænan grun um hvað þetta átti allt saman að kosta!
Gott og vel. Það er svosem fyrirgefanlegt þegar menn bjóða sig fram til formennsku í nemendafélagi að kosningaloforð um pizzur á föstudögum klúðrist ... en þegar menn veifa loforðum framan í heila þjóð án þess að gera sér nokkra grein fyrir kostnaði að baki loforðunum þá fer rauða spjaldið á loft. Svona óábyrg vinnubrögð eiga ekki að líðast.
Dæmi 2. Það var eflaust mikill og háþróaður húmor á fyrri hluta síðustu aldar að snúa út úr með lélegum fimm aurum. Í dag eru hins vegar fimm aura línurnar jafn mikils virði og ... tja ... fimm aurar. Sumsé einskis nýtt drasl (safnast þegar saman kemur á ekki við í þessu tilviki - uppsafnaðir fimm aura brandarar verða ekki gulls ígildi). Maður fær því hálfgerða gæsahúð þegar þessi annars ágæti maður slær um sig með fimm aurum eins og það sé enginn morgundagur.
Dæmi 3. Ómar hefur gert nokkuð af því að syngja barnalög. Ég get ómögulega sett fram málefnalegt sjónarmið um hvers vegna ég tel það löst Ómars, en allt frá því ég var smábarn hefur mér liðið eins og verið sé að draga neglur eftir krítartöflu þegar maðurinn syngur barnalög. Ég minnist þess raunar að hafa velt því fyrir mér, þá um það bil þriggja ára gömul, hvað ég hafi gert rangt þegar spólunni með Ómari var skellt í kasettutækið á gamla Saabinum þegar fjölskylda hélt í útilegur. Gott ef ég íhugaði ekki að fleygja mér út úr bílnum á ferð, svo átakanlegur þótti mér söngurinn! Smekkur fólks er þó vafalaust ólíkur í þessum efnum.
Meðal annars vegna þessa, treysti ég ekki sísyngjandi manninum til að fara með málefni heillrar þjóðar. Lái mér hver sem vill.
Athugasemdir
Ég hef líka verið að velta þessu fyrir mér og fatta ekki hvers vegna ekkert flug er á Íslandshreyfingunni. Með fullt af góðu fólki í toppsætum. Ég hugsa að það sé sambland af mörgu, kannski aðallega að sá sem skipuleggur kosningabaráttuna er ekki með skýra sýn, eiginlega enga sýn og það er alltaf erfitt fyrir ný framboð að ná inn. Það þarf eitthvað virkilegt hitamál sem einkennir hreyfinguna eins og kvótamálið hjá Frjálslyndum.
Ef fólk hefði verið verulega á móti Kárahnjúkavirkjun þá hefði svona flokkur átt að vera á fljugandi siglingu fyrir 4 árum. það var hann ekki.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 29.4.2007 kl. 12:29
mitt mat er að stærstu mistök Íslandshreyfingarinnar hafi verið að velja Ómar umfram Margréti í formanninn. Hún er vanur pólitíkus og hafði mikið samúðarfylgi með sér.
Guðmundur H. Bragason, 29.4.2007 kl. 15:29
"Gerum bara eins og Henry Ford..... "
Örvar Þór Kristjánsson, 30.4.2007 kl. 11:27
Ég skil þetta ekki heldur þessi flokkur hefur fjölda fólks í toppsætum en það er bara allt eitthvað svo lummó þetta lið, ég meina Kobbi Magg þetta er lúðalegasti smáborgari sem ég hef nokkurn tíman augum litið.
Vilhjálmur Andri Kjartansson (IP-tala skráð) 30.4.2007 kl. 11:41
Mér finnst Íslandshreyfingin vera með ein bestu rök fyrir því af öllum flokkunum hvernig þeir ætla að hafa efni á öllum þessum kosningaloforðum.
Þeir ætla að lækka tekjuskatt á fyrirtækji og gera Ísland að einu besta viðskiptaumhverfi sem fyrirtækji geta verið í. Þannig er hægt bæði að auka vaxtarhraða íslenskra stórfyrirtækja auk þess að geta laðað að erlend stórfyrirtæki hingað til lands. Með þessu myndu skatttekjur aukast fremur en hitt. Þau myndu kannski minnka til að byrja með en myndu síðan aukast.
Jakob Magnússon hefur tekið dæmi með Írland sem er með 12,5% tekjuskatt á fyrirtæki og hagvöxturinn þar hefur verið rosalegur. Það er ekki langt fyrir ísland að komast kannski niður í 12 % og verða samkeppnishæfari en Írland
Kveðja Kjarri01
Kjartan Hansson (IP-tala skráð) 7.5.2007 kl. 18:05
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.