12.5.2007 | 13:39
Internetið er bóla
Þeir sem til mín þekkja vita að það fer fátt meira í taugarnar á mér en keðjupóstur og annar póstur sem sendur er til ótiltekins fjölda þar sem er sagt frá einhverjum upplognum kraftaverkum sem munu gerast ef maður bara brosir, svo dæmi sé tekið. Í keðjupóstunum er viðtakandanum gjarnan hótað lífláti og limlestingum ef hann sendir ekki einhverjar krúsídúllur til 10 vinkvenna sinna innan 10 mínútna. Ég tek ekki þátt í þessu rugli.
Snemma í morgun sat ég hins vegar ein á vinnustofu HR og vorkenndi sjálfri mér yfir því að geta ekki tekið þátt í kosningagleði og söngvakeppni Austur Evrópu. Ég varð því himinlifandi þegar ég sá að ég hafði fengið póst. Hugulsami sendandinn var ágæt vinkona mín hún Sasa (Svanhildur Sigurðardóttir ég geri þig meðseka í þessu máli!).
Þetta var einmitt einn af þessum tölvupóstum sem ég eyði yfirleitt án þess að aðhafast frekar. Um var að ræða einhvers konar boð um að skrá sig á vefsíðu nefnda Tagged. Eftir því sem ég kemst næst heldur síðan utan um afmælisdaga og eitthvað áþekka ómerkilegt, þannig að vinir manns muni örugglega ekki gleyma manni þegar maður blæs í blöðrur og býður upp á skúffuköku. Eins og um mikilvægan ábyrgðarpóst væri að ræða ákvað ég, í mestu leiðindunum, að fikta eitthvað í þessum pósti hennar Sösu.
Það er skemmst frá því að segja að mér hefur nú tekist að óska eftir afmælisdögum og áþekka ómerkilegum upplýsingum frá ... tja ... frá öllum þeim sem ég hef sent póst á síðastliðnum fjórum árum. Gróflega áætlað fer fjöldinn vel fyrir 4 tölustafi enda hef ég tekið þátt í hinum ýmsu kosningabaráttum þar sem ... tja ... um það bil öllum er sendur tölvupóstur! Vinir, vandamenn, fjölskylda, kunningjar, gamlir skólafélagar, gamlir leikskólafélagar, þingmenn, ráðherrar, framkvæmdastjórar, pólitískir andstæðingar, kennarar, námsmenn, saumaklúbbar, skotveiðiklúbbar og vinir kunningja minna sem þekkja fólk sem þekkja menn. Allt þetta ágæta fólk heldur því miður nú að ég sé langt leiddur tengslanetssjúklingur. Ekki nógu jólalegt.
Ástæða þess að ég blogga um þetta, er sú að ég vil í það minnsta gera tilraun til að takmarka tjónið. Ég vil síður en svo vekja hjá fólki falskar vonir um að ég mæti í hvert einasta afmæli á höfuðborgarsvæðinu með hjemmelavet kruðerí og heimaprjónaða pottaleppa. Það er ekki að fara að gerast.
Á stundum sem þessum vonar maður bara að internetið sé bóla.
Athugasemdir
Yfirmaður minn lenti í svipuðu "óhappi", nema hvað í hans tilviki var það eitthvað sem heitir Link-eitthvað og gerðist á vinnupóstfangi hans og sendist á alla í útboxi hans í Outlookinu (allir tengiliðir, verkefnastjórar, yfirmenn, undirmenn og hvaðeina í pósthólfi sem spannar mörg ár). Ekki til að gráta, en tvímælalaust til að læra af!
Geir Ágústsson, 12.5.2007 kl. 15:39
ohhhh ég sem hélt einmitt að allir sem eru á mínum contactalista væru klárari en ég og eyddu slíkum póstum. Þykir þetta svo leitt, úfff.... orð fá ekki lýst.. ég lofa allavegana að muna eftir afmælisdeginum þínum næst :-/
Svanhildur (IP-tala skráð) 12.5.2007 kl. 19:15
Þetta er eitthvað sem gæti hæglega komið fyrir mig...
Lilja Haralds (IP-tala skráð) 12.5.2007 kl. 19:21
Vinsamlega senda mér þennan afmælisdagalink. Ég er svo mikill afmælisdagarati að ég má þakka fyrir að gleyma ekki afmælisdögum barnanna minna. Ég held að þetta hljóti að hafa verið hannað með mig í huga svo vinsamlega deila með verðugum.....
Jóna Á. Gísladóttir, 13.5.2007 kl. 00:38
Getur reiknað með að fá helling af ruslpósti í kjölfarið á þessu - svona póstar eru yfirleitt bara til að ná í virk netföng fyrir "spammara"
Gulli (IP-tala skráð) 13.5.2007 kl. 12:34
Fyndið. Fékk akkúrat frá þér póst þar sem ég var vinsamlegast beðin um að svara því annars gætir þú haldið að við værum ekki vinir! Fór og skoðaði síðuna og átti afskaplega erfitt með að skilja hvað þú værir yfir höfuð að gera þar og hvort þetta væri nýjasta nýtt í að efla tengslanet kvenna.
Katrín Anna Guðmundsdóttir, 16.5.2007 kl. 11:57
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.