Um laganám og skýrslu Ríkisendurskoðunar um háskóla

Hver er sigurvegarinn?Síðustu daga hefur nokkuð verið rætt um nýútkomna skýrslu Ríkisendurskoðunar um kostnað, skilvirkni og gæði háskólakennslu. Skýrslan veitir ágæta, en þó fremur takmarkaða og að nokkru villandi innsýn í stöðu háskólanna á árunum 2003-2005.

Samanburður á háskólum í samkeppni er góður fyrir margra hluta sakir. Að mörgu ber hins vegar að hyggja þegar ráðist er í slíkan samanburð, auk þess sem fara verður varlega í að túlka niðurstöður hans. Þetta virðist að nokkru hafa gleymst í umræðum undangengna daga og hafa bæði fréttamenn og álitsgjafar gengið heldur langt í að túlka þær upplýsingar sem fram koma í skýrslunni og hvernig meta skuli niðurstöðuna. Þá hafa forsvarsmenn Háskóla Íslands (HÍ) ekki farið varhluta af ánægju sinni með skýrsluna.

Sem dæmi um undarlega túlkun sem komið hefur fram má nefna grein sem Dagný Ósk Aradóttir, formaður Stúdentaráðs HÍ, birti í Morgunblaðinu mánudaginn 18. júní sl. Hélt formaðurinn því meðal annars fram að HR fengi hærri rekstrarframlög frá ríkinu en HÍ, enda sýndi skýrslan að 76% rekstrarfjár HR árið 2005 kæmi frá ríkinu en aðeins 66% hjá HÍ. Tölurnar eru sannanlega réttar, en Dagný Ósk kýs að líta framhjá þeirri staðreynd að á tímabilinu tók HR yfir rekstur Tækniháskóla Íslands, sem var ríkisrekinn háskóli. Sá skóli hlaut því töluverðan hluta þess rekstrarfjár sem síðar rann inn í HR. Það telst því vart marktækur samanburður að líta til ársins 2005 hvað þennan þátt varðar. Þá lítur Dagný einnig framhjá þeim staðreyndum að HÍ fær margfalt hærri rannsóknarframlög frá ríkinu en aðrir háskólar, auk þess sem HÍ er tryggt enn meira fjármagn með því að skólanum er veitt einkaleyfi á happdrætti – nokkuð sem öðrum háskólum stendur ekki til boða. Aukinheldur má ekki gleyma því að HÍ rekur ýmsar stofnanir, sem fá töluvert fjármagn frá ríkinu í fjárlögum. Allar þessar staðreyndir kýs Dagný Ósk því miður að hunsa. Er málflutningur í þessa veru hvorki formanninum né HÍ til framdráttar.

Í samantekt Ríkisendurskoðunar segir meðal annars: „Af þeim ellefu atriðum sem horft var til varð HÍ efstur í níu tilvikum og í öðru sæti í einu. Skólinn var ódýrastur og með sterkasta akademíska stöðu í öllum námsgreinunum þremur, auk þess sem hann var skilvirkastur í tveimur námsgreinum af þremur.“ Af þessum orðum má sannalega ætla að Háskóli Íslands hafi unnið fegurðarsamkeppnina. En í hverju var Háskóli Íslands raunar bestur? Til að skoða þetta nánar er ágætt að taka samanburð á laganámi sérstaklega til skoðunar, enda hefur nokkur styr staðið um hina auknu samkeppni í laganámi síðastliðin ár.

Kostnaður
Í skýrslunni kemur fram að starfsmannakostnaður á hvern fullskráðan laganema var langlægstur hjá HÍ. Einkareknu skólarnir höfðu nokkuð hærri starfsmannakostnað og taldi Ríkisendurskoðun það meðal annars skýrast af ólíkum fjölda nemanda um hvert stöðugildi og mismunandi launum starfsmanna. Menn hljóta því að spyrja hvort það teljist sigur að borga starfsmönnum lagadeildar HÍ lægri laun en aðrir skólar gera, auk þess að þjappa fleiri nemendum á hvern kennara? Telja forsvarsmenn HÍ það ánægjuefni? Ríkisendurskoðun telur slíkt að sjálfsögðu sigur, enda er þeirri stofnun falið að lögum að sjá til þess að fjármagn ríkisins sé nýtt á sem hagkvæmastan hátt. Maður hefði hins vegar haldið að forsvarsmenn HÍ berðu sér ekki á brjóst fyrir sigur í þessum flokki – í það minnsta má ætla að starfsmenn lagadeildar HÍ hafi sett hljóðan.

Í þessum flokki samanburðarins má segja að einkaskólarnir hafi komið vel út. Kennarar einkaskólanna fá betri laun og færri nemendur eru á hvern kennara. Vilji íslenskir háskólar komast á stall með þeim stóru í erlendum samanburði hlýtur afstaða einkaskólanna til þessa þáttar að vera skref í áttina.

Akademísk staða
Akademísk staða háskólanna sem bjóða upp á laganám var metin með því að vega saman tvo þætti; annars vegar menntunarstig fastra akademískra starfsmanna (prófessora, dósenta og lektora) og hins vegar rannsóknarafköst. Kom í ljós að 50% starfsmanna lagadeildar Háskólans í Reykjavík (HR) í föstum akademískum stöðum var með doktorspróf árið 2005. Þeir voru einungis 11% í HÍ og 14% við Háskólann á Bifröst (HB). Af þessum má því vera ljóst að kennarar HR hafa meiri menntun en kennarar annarra skóla. Verður það að teljast ánægjuefni.

HÍ var hins vegar nokkuð hærri en einkaskólarnir þegar greinarígildi á hvert akademískt stöðugildi var skoðað, m.a. vegna tveggja viðamikilla bóka sem starfsmenn lagadeildar HÍ gáfu út á tímabilinu. Greinarígildum hjá kennurum lagadeildar HR fjölgaði hins vegar nokkuð á tímabilinu, á meðan þeim fækkaði hjá kennurum HB.

Þegar þessir tveir þættir voru teknir saman hlaut HÍ 14,7 stig og HR og HB 14 stig hvor. Líkt og látið hefur verið í veðri vaka má sökum þessa velta fyrir sér hvort unnt sé að tala um stórsigur lagadeildar HÍ í samanburði á akademískri stöðu, sérstaklega þegar höfð er í huga sú staðreynd að bæði HR og HB höfðu vart slitið barnsskónum þegar samanburðurinn fór fram? Þá kom einnig í ljós að tekjur sem voru sérstaklega ætlaðar til að kosta rannsóknir voru hlutfallslega mestar hjá HR á tímabilinu. Viðamiklar rannsóknir eru einmitt grundvöllur þess að stofnun geti kallað sig háskóla. Ljóst er því að lagadeild HR stendur vel að vígi þegar akademísk staða er metin.

Skilvirkni
Í þriðja og síðasta lagi var gerður samanburður á skilvirkni laganáms. Var skilvirknin metin með því að skoða annars vegar fjölda nemenda á hvert akademískt stöðugildi (framleiðni vinnuafls) og hins vegar kostnað á hvern brautskráðan nemanda (framleiðni fjármagns). Aðeins var litið til ársins 2005 þegar HR brautskráði fyrstu nemendur sína með B.A. gráðu í lögfræði. Fjöldi brautskráðra nemenda á hvert akademískt stöðugildi árið 2005 var því 3,8 hjá HÍ en 3,0 hjá HR. Þá var einnig metinn starfsmannakostnaður á hvern brautskráðan nemanda árið 2005 og var kostnaðurinn til muna lægstur hjá lagadeild HÍ. Fyrir þetta hlaut lagadeild HÍ flest stig. Hins vegar var brottfall eftir 1 ár í grunnnámi að meðaltali 43% hjá HÍ á árunum 2003-2005 en 24% hjá HR. Er því ljóst að meira fé fór til spillis hjá lagadeild HÍ vegna brottfalls nemenda heldur en hjá HR. Hefur þetta að sjálfsögðu áhrif á skilvirkni, eins og réttilega er bent á í skýrslunni. Það sem miður er þó að brottfallið er einhverra hluta vegna ekki metið til stiga. Ef svo hefði verið má telja nærri öruggt að HÍ hefði ekki verið jafn skilvirkur og Ríkisendurskoðun vill vera að láta.

Finnast meiri gæði í laganámi HÍ heldur en annarra skóla?
Að þessum þremur þáttum virtum, þ.e. kostnaði, skilvirkni og gæði háskólanáms (sem Ríkisendurskoðun skilgreinir svo), má velta fyrir sér hvort HÍ sé sigurvegari í samanburði laganáms á Íslandi. Skólinn vann sannanlega fegurðarsamkeppni Ríkisendurskoðunar, en um leið hljóta menn að spyrja sig hvort slíkt sé eftirsóknarvert þegar raunveruleg gæði kennslu eru metin? Er það lykill að árangri, hvað gæði menntunar varðar, að borga starfsmönnum lægri laun en aðrir háskólar? Er það lykill að árangri að hafa fleiri nemendur á hvern kennara en aðrir skólar? Er það lykill að árangri að hafa minni tekjur eyrnamerktar rannsóknum en aðrir háskólar?

Hvað sem öðru líður er það þó í besta falli varhugavert að stofnun sem á að gæta þess að fjármunum ríkisins sé varið í samræmi við fjárlög, gangi í það hlutverk að kveða upp dóma um gæði náms. Forsendur Ríkisendurskoðunar eru því marki brenndar að kostnaði skuli haldið í lágmarki. Slíkt hefur fátt með gæði náms að gera, enda hafa sumir skólar þá stefnu að laða til sín góða kennara með því að borga þeim góð laun eða að hafa fáa nemendur á hvern kennara. Er þetta meðal annars gert einmitt til að auka gæði kennslu! Slíkt telst hins vegar löstur í bókum Ríkisendurskoðunar. Þegar svo er komið er greinarhöfundur einfaldlega feginn því að Háskólinn í Reykjavík hafi ekki sigrað fegurðarsamkeppni Ríkisendurskoðunar. Betri leiðir við mat á raunverulegum gæðum náms eru án vafa fyrir hendi.

Þess ber að geta að ég er fyrrverandi nemi við lagadeild Háskólans í Reykjavík


Internetið er bóla

Computer GeekÞeir sem til mín þekkja vita að það fer fátt meira í taugarnar á mér en keðjupóstur og annar póstur sem sendur er til ótiltekins fjölda þar sem er sagt frá einhverjum upplognum kraftaverkum sem munu gerast ef maður bara brosir, svo dæmi sé tekið. Í keðjupóstunum er viðtakandanum gjarnan hótað lífláti og limlestingum ef hann sendir ekki einhverjar krúsídúllur til 10 vinkvenna sinna innan 10 mínútna. Ég tek ekki þátt í þessu rugli.

Snemma í morgun sat ég hins vegar ein á vinnustofu HR og vorkenndi sjálfri mér yfir því að geta ekki tekið þátt í kosningagleði og söngvakeppni Austur Evrópu. Ég varð því himinlifandi þegar ég sá að ég hafði fengið póst. Hugulsami sendandinn var ágæt vinkona mín hún Sasa (Svanhildur Sigurðardóttir ég geri þig meðseka í þessu máli!).

Þetta var einmitt einn af þessum tölvupóstum sem ég eyði yfirleitt án þess að aðhafast frekar. Um var að ræða einhvers konar boð um að skrá sig á vefsíðu nefnda Tagged. Eftir því sem ég kemst næst heldur síðan utan um afmælisdaga og eitthvað áþekka ómerkilegt, þannig að vinir manns muni örugglega ekki gleyma manni þegar maður blæs í blöðrur og býður upp á skúffuköku. Eins og um mikilvægan ábyrgðarpóst væri að ræða ákvað ég, í mestu leiðindunum, að fikta eitthvað í þessum pósti hennar Sösu.

Það er skemmst frá því að segja að mér hefur nú tekist að óska eftir afmælisdögum og áþekka ómerkilegum upplýsingum frá ... tja ... frá öllum þeim sem ég hef sent póst á síðastliðnum fjórum árum. Gróflega áætlað fer fjöldinn vel fyrir 4 tölustafi – enda hef ég tekið þátt í hinum ýmsu kosningabaráttum þar sem ... tja ... um það bil öllum er sendur tölvupóstur! Vinir, vandamenn, fjölskylda, kunningjar, gamlir skólafélagar, gamlir leikskólafélagar, þingmenn, ráðherrar, framkvæmdastjórar, pólitískir andstæðingar, kennarar, námsmenn, saumaklúbbar, skotveiðiklúbbar og vinir kunningja minna sem þekkja fólk sem þekkja menn. Allt þetta ágæta fólk heldur því miður nú að ég sé langt leiddur tengslanetssjúklingur. Ekki nógu jólalegt.

Ástæða þess að ég blogga um þetta, er sú að ég vil í það minnsta gera tilraun til að takmarka tjónið. Ég vil síður en svo vekja hjá fólki falskar vonir um að ég mæti í hvert einasta afmæli á höfuðborgarsvæðinu með hjemmelavet kruðerí og heimaprjónaða pottaleppa. Það er ekki að fara að gerast.

Á stundum sem þessum vonar maður bara að internetið sé bóla.


Kjördagur runninn upp

Til hamingju með daginn.

Þetta verður vonandi upphafið að enn öflugra Íslandi, þar sem einstaklingurinn og sá kraftur sem hann býr yfir fá að njóta sín.

X-D

p.s. Annars hófst dagurinn á því að það fékkst endanlega staðfest að ég er seinþreytt til vandræða. Segi frá óförunum síðar ... þegar ég hef jafnað mig á sjokkinu!


Áhlaup á dómsmálaráðherra

Ungur að árumMæli með þessu.

Mér þykir fátt óréttara í stjórnmálaþrátti á Íslandi en gagnrýni sú sem Björn Bjarnason hefur fengið í gegnum tíðina. Það skal viðurkennast að ég tek hana hreinlega nærri mér.

Við vorum tvö sem tókum að okkur kosningastjórn fyrir Björn í prófkjörsbaráttu sjálfstæðismanna í Reykjavík síðastliðið haust og fékk ég þá tækifæri til að kynnast Birni og hans vinnubrögðum. Réttsýnni, duglegri eða málefnalegri stjórnmálamaður er vandfundinn. Öll hans vinnubrögð einkennast af hreinni fagmennsku fram í fingurgóma.

 


Maður er nefndur...

„Vegna þessa vildum við Alþb.-menn og aðstandendur Þjóðviljans gjarnan hafa svona íhald í landinu, svo að við studdum framboð hv. þm. Ragnhildar Helgadóttur til varaformanns í Sjálfstfl. Það var sameiginlegt skipbrot Þjóðviljans og hennar að hún skyldi ekki ná kosningu. Það er að vísu nokkur ágreiningur um þetta innan Alþb. eins og kom fram í ræðu síðasta hv. ræðumanns. En þeir þm. hjá okkur, sem studdu hv. þm. Friðrik Sophusson, eru fáir. Allur þorri flokksins taldi á hinn bóginn að hagsmunum okkar hefði verið miklu betur þjónað með því að hv. þm. Ragnhildur Helgadóttir hefði verið kosin varaformaður Sjálfstfl. (LJ: Eigið þið ekki nóg með að kjósa ykkar eigin formann?) Nei, það gengur svo vel hjá okkur að við eigum mikla orku afgangs í þeim efnum. Hluti þeirrar orku dugði t. d. til að stuðla að kjöri Geirs Hallgrímssonar sem formanns flokksins. Hann var frambjóðandi okkar í formannssæti í Sjálfstfl. og hann náði kjöri. En okkur tókst því miður ekki að fá kosinn frambjóðanda okkar í varaformannskjöri.“

Þetta var mælt úr pontu á Alþingi í nóvember árið 1981.

Af ræðu mannsins mætti næstum álykta að hann og félagar hans hafi haft töglin og hagldirnar í Sjálfstæðisflokknum. Svo var sem betur fer ekki.

Sá sem kvaddi sér hljóðs í sölum Alþingis hefur aldrei verið í Sjálfstæðisflokknum.

Maðurinn hefur þó sannanlega haft lag á því að reka nefið ofan í hin ýmsu mál sem eru honum óviðkomandi. Í síðari tíð hefur hann hins vegar svarið af sér alla afskiptasemi. Þar sem um skynsaman og greindan mann er að ræða má auðvitað gera ráð fyrir að hann hafi sjálfsaga til að standa við áramótaheitin sín. Batnandi mönnum er jú best að lifa.

Maður er nefndur ...


Kjördagur Ingibjargar Sólrúnar í dag

Fyrir nokkrum dögum sagði Ingibjörg Sólrún að það væri ekkert að marka skoðanakannanir. Kjördagur væri eina skoðanakönnunin sem gild væri.

Í dag var kjördagur hjá Ingibjörgu Sólrúnu. Í fréttum Bylgjunnar sagðist hún afar þakklát fyrir þann mikla stuðning sem flokkurinn væri að fá í skoðanakönnunum. Þetta væri mjög góð niðurstaða fyrir Samfylkinguna og fólk hefði augljóslega tekið undir sjónarmið flokksins um að góðærinu væri misskipt ...zzzz ...

Þrátt fyrir að ég sé með 39 stiga hita, stíflað nef og dúndrandi hausverk er ég alveg viss um að ég skilji enn íslensku (svona nokkurn veginn). Ég viðurkenni þó að eiga erfitt með einbeitingu þegar heilsan er á þennan veg og varla á ástandið bætandi að vera með Ingibjörgu í eyrunum. Ég er þess þó fullviss að ég heyrði formanninn ekki úthúða skoðanakönnunum og telja þær hina mestu markleysu í dag. Ég álykta því sem svo að samfylkingarmenn hafi kosið í dag, enda kjördagur eina skoðanakönnunin sem mark er á takandi að mati formannsins.

Merkilegt.

Sökum þessa tvískinnungs formannsins svo má auðvitað vænta þess að hún staðhæfi að kosningarnar séu markleysa bíði flokkurinn hnekki á laugardag. Þá verða skoðanakannanirnar hin heilaga ritning.


Minnisglöp Össurar

Hér var bara boðið upp á djús í tilefni þess að Össur átti afmæli

Össur Skarphéðinsson er svo sannarlega öflugur í kosningabaráttunni þessa dagana. Svo miklum hamförum fer maðurinn í kosningaklækjum að það læðist að mér sá grunur að maðurinn vakni hreinlega við fyrsta hanagal hvern einasta morgun fullur tilhlökkunar að takast á við andstæðing og annan. Bíður þess hreinlega að fá að kljúfa menn í herðar niður. Jafnaðarmannariddarinn.

Þegar spennan er orðin svo mikil nú stuttu fyrir kosningar reiðir hins vegar á að menn sýni stilli. Þessu virðist Össur þó hafa gleymt í hitanum, því svo mikið kapp hljóp í þingflokksformanninn í morgun, að honum hefur að líkindum orðið brátt í brók af spennunni einni saman!

Hann taldi sig væntanlega loksins, já loksins, hafa baneitraða ör í höndunum. Nú átti sannanlega að kýla fylgi Sjálfstæðisflokksins niður. Hann spennti því bogann af mikilli fimi, skaut gullnu örinni í átt að Sjálfstæðisflokknum og afraksturinn ... tja, afraksturinn varð þetta blogg.

Þingflokksformaðurinn mátti vart vamm sitt vita yfir því að Sjálfstæðisflokkurinn hafi boðið stúdentum Háskólans í Reykjavík í kokteil! Og það dugði ekkert minna en hegningarlagabrot til að lýsa ólifnaðinum. Þvílíkur var óbjóðurinn og asnaskapurinn í Sjálfstæðisflokknum. Misneyting og misnotkun á bláfátækum og forheimskum stúdentum, sem létu ginnast með 0,33cl öli í bauk – allt fyrir atkvæðið.

Alsæluvíma Össurar yfir þessum óvænta hælkrók á Sjálfstæðisflokkinn, virðist hins vegar hafa haft slæmar afleiðingar á minni mannsins. Það var nefnilega ekki nema réttum hálfum mánuði fyrir ólifnað Sjálfstæðisflokksins að ég, og aðrir stúdentar við HR, fengum boðskort frá Össuri og flokksfélögum hans í Samfylkingunni (sjá mynd). Spekingslegt glott þingflokksformannsins á glæsilegu boðskortinu og hljómfagrar setningar um fríar veigar Bakkusar áttu sannanlega að tæla boðsgestina til liðs við Samfylkinguna. Kjóstu sammarana og þú færð bjór.

Í boðskortinu kom því miður hvergi fram að boðið færi gegn hegningarlögum, siðgæðisvitund og almennu velsæmi siðprúðra manna.

Hins vegar eru tilfæringar Össurar á bloggi sínu gegn öllu velsæmi. Eiga kjósendur að taka mann alvarlega sem hagar sér með svo miklum barnaskap að einstaklingar á Grænuborg roðni yfir asnaskapnum? Er maðurinn að bjóða sig fram til að stjórna skemmtinefnd HR eða til að stjórna heilu landi? Ég er svei mér þá ekki viss hverju skal svara.


Sviksamleg Samfylking

Hækkun skatta og gjalda gerðist svo sannarlega í ReykjavíkStefna Samfylkingarinnar í skattamálum er afar áhugaverð lesning þar sem hinum ýmsustu lækkunum skatta og gjalda er enda lofað nú í aðdraganda kosninga. Það sem gerir stefnuna þó hvað áhugaverðasta er að Samfylkingin virðist loksins hafa viðurkennt að sómi hafi ekki verið af valdatíð flokksins í Reykjavíkurborg.

Í 12 ára valdatíð R-listans fengu borgarbúar nefnilega tíðar fregnir af hækkunum gjalda, líkt og til að mynda hækkun fasteignagjalda, lóðagjalda og leikskólagjalda svo dæmi séu tekin úr stórum potti. Lækkun gjalda var þá ekki á stefnuskrá Samfylkingarinnar eða annarra flokka í R-listasamstarfinu. Samfylkingin hefur því væntanlega skammast sín fyrir þetta og breytt stefnu sinni nú fyrir kosningar.

Þá tókst R-listanum einnig að hækka útsvar borgarbúa í hæstu leyfilegu mörk, 13,03% í valdatíð sinni í Reykjavík. Skattpíning Samfylkingarinnar átti sér því engin takmörk. Samviskan hefur því auðsýnilega nagað Samfylkinguna úr því að nú hefur verið breytt um stefnu og lækkanir hinna ýmsu skatta eru á dagskrá Samfylkingarinnar rétt fyrir kosningar.

Þrátt fyrir að Samfylkingunni og Stefáni Ólafssyni, sé nú tíðrætt um hversu illa sé farið með láglaunafólkið í skattalækkunum ríkisstjórnarinnar, þá ber flokkurinn væntanlega fyrir sig minnisleysi þegar láglaunafólkið spyr hvar hugulsemin hafi verið þegar R-listinn var við völd í Reykjavík. Það vill nefnilega svo til að hækkun útsvars kemur sér sérlega illa fyrir þá sem hafa litlar tekjur því allir, sama hversu lágar tekjur þeir hafa, verða að greiða útsvar. Þeir sem lægstu allra lægstu tekjurnar hafa þurfa hins vegar ekki að greiða skatt vegna skattleysismarka. R-listinn skattlagði því lægstu tekjurnar miskunnar- og grímulaust með sífelldum hækkunum útsvars í valdatíð sinni. Þessu flaggar Samfylkingin hins vegar ekki nú rétt fyrir kosningar og Stefán Ólafsson, besti vinur litla mannsins, hefur væntanlega verið á heljarinnar fylleríi alla valdatíð R-listans.

Af ofangreindu má draga þá ályktun að Samfylking sé nú annað hvort að viðurkenna að hún hafi farið illa með Reykvíkinga í valdatíð sinni hér í borg eða að hún er einfaldlega að ljúga að kjósendum með loforðum sem aldrei verða efnd ef kjósendur slysast til að falla fyrir þessu! Mér segir svo hugur að síðarnefnda ályktunin sé réttari.


Ögmundur slapp ómeiddur

Lögreglan í Reykjavík handtók 1378 mótmælendur í kröfugöngu á Laugaveginum í dag. Mótmælendunum var afar heitt í hamsi og kröfðust þeir þess meðal annars að kjarasamningar yrðu afnumdir fyrir fullt og fast. Fólkið lét afar ófriðlega og kastaði meðal annars eggjum, súrum gúrkum, flöskum og flugeldum að lögreglunni. Allt ætlaði þó um koll að keyra þegar óánægður lýðurinn hóf að kasta Ögmundi Jónassyni í lögreglumenn.

Ögmundur laskaðist eilítið í volkinu, en kvaðst þó ótrauður ætla að halda áfram að kvelja verkalýðinn með grímulausum sósíalisma.


Dúllan hann Ómar

Ómar á degi þar sem hann ákvað að syngja ekki - það var góður dagurÓmar Ragnarsson hefur ekki náð flugi í kosningabaráttunni - eða réttara sagt þá hefur hann eiginlega ekki komið niður á jörðina alla baráttuna. Þó maðurinn sé auðvitað dúllulegri en Barbapabbi og Herbert Guðmundsson skeyttir saman, þá er hann einhvern veginn ekki að dansa.

Ég vil nefna nokkrar handahófskenndar ástæður þess að ég kýs ekki Ómar.

Dæmi 1. Þegar Ómar var í Kastljósinu í síðustu viku rekur mig ekki minni til að hann hafi mótmælt nokkrri einustu kostnaðarhvetjandi tillögu sem þáttastjórnendur leituðu álits hans á. Það er svosem allt í góðu ef einhverjir hafa þá skoðun að ríkið eigi að vasast í öllum málefnum einstaklinganna, en menn verða þá að viðurkenna um leið að skattahækkanir séu óhjákvæmilegar til að mæta auknum kostnaði. Ómar ætlaði hins vegar líka að lækka skatta! Þegar hann var svo inntur svara á því hvað hin lofuðu herlegheit kostuðu má segja að hann hafi skotið sig í fótinn - jafnvel báða fæturna. Hann hafði að sjálfsögðu ekki grænan grun um hvað þetta átti allt saman að kosta!

Gott og vel. Það er svosem fyrirgefanlegt þegar menn bjóða sig fram til formennsku í nemendafélagi að kosningaloforð um pizzur á föstudögum klúðrist ... en þegar menn veifa loforðum framan í heila þjóð án þess að gera sér nokkra grein fyrir kostnaði að baki loforðunum þá fer rauða spjaldið á loft. Svona óábyrg vinnubrögð eiga ekki að líðast.

Dæmi 2. Það var eflaust mikill og háþróaður húmor á fyrri hluta síðustu aldar að snúa út úr með lélegum fimm aurum. Í dag eru hins vegar fimm aura línurnar jafn mikils virði og ... tja ... fimm aurar. Sumsé einskis nýtt drasl (safnast þegar saman kemur á ekki við í þessu tilviki - uppsafnaðir fimm aura brandarar verða ekki gulls ígildi). Maður fær því hálfgerða gæsahúð þegar þessi annars ágæti maður slær um sig með fimm aurum eins og það sé enginn morgundagur.

Dæmi 3. Ómar hefur gert nokkuð af því að syngja barnalög. Ég get ómögulega sett fram málefnalegt sjónarmið um hvers vegna ég tel það löst Ómars, en allt frá því ég var smábarn hefur mér liðið eins og verið sé að draga neglur eftir krítartöflu þegar maðurinn syngur barnalög. Ég minnist þess raunar að hafa velt því fyrir mér, þá um það bil þriggja ára gömul, hvað ég hafi gert rangt þegar spólunni með Ómari var skellt í kasettutækið á gamla Saabinum þegar fjölskylda hélt í útilegur. Gott ef ég íhugaði ekki að fleygja mér út úr bílnum á ferð, svo átakanlegur þótti mér söngurinn! Smekkur fólks er þó vafalaust ólíkur í þessum efnum.

Meðal annars vegna þessa, treysti ég ekki sísyngjandi manninum til að fara með málefni heillrar þjóðar. Lái mér hver sem vill.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband